• Fylgið okkur

Áratugur af sirkus

Reykjavík 13.-22. Júlí    Akureyri 3.-5. Ágúst

Sýningar

Áratugur af sirkus

Landsmenn geta í ár fagnað áratug af íslenskum sirkus, og í tilefni af því slær Sirkus Íslands til sannkallaðrar veislu! Íslenskt sirkusfólk tjaldar sirkustjaldinu Jöklu og býður upp á frábært nýtt efni í bland við gamla smelli sem ekki hafa sést lengi. Sirkustjaldið verður reist í Vatnsmýrinni, þar sem hið goðsagnakennda Tívolí stóð forðum og þar sem draumurinn um íslenskt sirkustjald vaknaði á sirkushátíð 2013, og við Drottningarbraut á Akureyri. Þessi litríka fjölskyldusýning er uppfull af loftfimleikafólki, trúðum, juggli, akróbötum og alls kyns ótrúlegum uppákomum og svíkur engan – stóran né smáan – um háklassa og töfrandi sirkusupplifun.

Skinnsemi 2018

Skinnsemi 2018 er háklassa sirkussýning fyrir fullorðna, með slettu af burlesque og góðu dassi af vitleysisgangi. Sýningin í ár er meðal annars uppfull af ótrúlegum loftfimleikum, glimmerdrengjum, keilukúlum og háalvarlegu tónprumpi. Frá 2011 hefur Skinnsemi verið vettvangur fyrir reglulega útrás íslensks sirkuslistafólks fyrir fullorðinshúmor og kynþokka sem ekki hentar fjölskylduskemmtunum, og getur hún því kallast einn af brautryðjendum ört vaxandi kabarettsenu á Íslandi. Skinnsemi 2018 fer fram í sirkustjaldinu Jöklu í Vatnsmýri 13. – 22. júlí og á Akureyri um Verslunarmannahelgina.